Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 51/2012 - Úrskurður

Föstudaginn 25. janúar 2013

 

 

 

51/2012

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

 

Með kæru, dags. 8. febrúar 2012, kærir B  f.h. A Reykjavík, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um afturvirka breytingu á hlutfalli búsetuskerðingar örorkulífeyris.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. X 2007, móttekinni sama dag af Tryggingastofnun ríkisins, sótti kærandi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Samþykkt var að kærandi skyldi fá 31,64% greiðsluhlutfall örorkulífeyris en sú skerðing á fullum greiðslum var tilkomin vegna búsetu kæranda í C. Þann 11. október 2011 óskaði umboðsmaður kæranda eftir því við Tryggingastofnun ríkisins með tölvupósti að kannað yrði hvort búsetuhlutfall kæranda væri rétt reiknað. Með tölvupósti, dags. 13. október 2011, frá Tryggingastofnun var það staðfest að greiðsluhlutfall kæranda ætti að vera 61,04%. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2011, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að búsetuhlufall hennar hefði verið vitlaust skráð og rétt búsetuhlutfall væri 61,04%. Með vísan til 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar hefðu greiðslur kæranda verið endurreiknaðar frá og með 1. nóvember 2009.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 

„A fékk greidda örorkubætur frá X 2007 m.v. 31,64% búsetuhlutfall þrátt fyrir að hafa gefið upp í umsókn sinni um örorkulífeyrir og tengdar greiðslur að hún hefði verið búsett í C og á hvaða tímabili. TR gerir þau mistök að reikna ranglega út búsetuhlutfall hennar. TR fær ábendingar um að búsetuhlutfallið sé ekki rétt reiknað, eftir að A hafði leitað með sín mál til B. TR leiðréttir búsetuhlutfallið og þar með greiðslur til A tvö ár aftur í tímann eða til X 2009. A er gert að una því að búsetuhlutfall hennar sé ranglega reiknað (31,64% í stað 61,04%) í tvö ár eða frá X 2007 – X 2009. TR hafði upplýsingar frá A um búsetu hennar erlendis áður en stofnunin hóf að greiða henni örorkulífeyrir og tengdar greiðslur þann X 2007. TR hefur að auki aðgang að þjóðskrá til að sannreyna upplýsingar A um búsetu hennar erlendis. Hér er því um mistök stofnunarinnar að ræða sem eru íþyngjandi fyrir kæranda, A.

 

TR vísar í bréfi sínu til A, dags. 18.11.2011, í 53. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, en þar segir að bætur séu reiknaðar frá 1. næsta mánaðar eftir að umsókn og öll önnur gögn berast og að bætur skuli aldrei ákvarða lengra en tvö ár aftur í tímann. Ákvæði 53. gr. laga nr. 100/2007 á ekki við í þessu tilviki. Umsókn A og öll gögn er varðar örorkulífeyrir og tengdar greiðslur barst TR X 2007. A lagði ekki fram nýja umsókn í október 2011, enda ekki ástæða til. Greiðslur TR til A voru leiðréttar og endurreiknaðar í framhaldi af ábendingu frá B í október 2011, um að útreikningur búsetuhlutfalls A væri ekki réttur. TR ber að leiðrétta mistök sín, ekki eingöngu 2 ár aftur í tímann, heldur frá því að stofnunin hóf að greiða A örorkulífeyri og tengdar greiðslur m.v. ranglega reiknað búsetuhlutfall, X 2007. “

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 20. febrúar 2012. Í greinargerð stofnunarinnar, dags. 18. júní 2012, segir:

 

„B kærir f.h. A afturvirkni á breytingu á hlutfalli búsetuskerðingar örorkulífeyris.

 

Heimild til greiðslu örorkulífeyri byggist á 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (ATL).  Þar segir í 1. og 4. mgr.:

 

Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:

  1. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,
  2. b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

...

Fullur örorkulífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Í 1. mgr. 17. gr. segir:

 

Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

 

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár hafði kærandi fyrir upphaf örorku sinnar verið búett í C á tímabilinu X – X, þ.e. frá X til X ára aldurs.  Hún fékk greiddan endurhæfingarlífeyri á tímabilinu X og frá X 2007 hefur hún fengið greiddan örorkulífeyri.  Greiðslur hennar eru skertar vegna þess að fyrir upphaf greiðslna hafði hún verið búsett á Íslandi í 10,33 ár af þeim tæplega 37 árum sem liðin voru frá 16 ára aldri.

 

Við afgreiðslu á umsókn hennar var greiðsluhlutfall A reiknað í hlutfalli við búsetu hennar hér á landi eins og ofangreind ákvæði þessi kveða á um og fékk hún því 31,64% greiðslur.

 

Í kjölfar fyrirspurnar frá B dags. 11. október sl. var greiðsluréttur hennar endurskoðaður út frá þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að Tryggingastofnun væri óheimilt að breyta frá þeirri útreikniaðferð vegna örorkulífeyris sem viðgengist hefði um árabil í sambærilegum málum að reikna að fullu með tímann frá upphafi örorkumats til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Greiðsluhlutfall A var í samræmi við þetta breytt í 61,04% og upphaf breytingarinnar miðast í samræmi við 53. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 við 1. nóvember 2009, þ.e. tvö ár aftur í tímann.“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. júní 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Eftirfarandi athugasemdir bárust með bréfi dags. 9. ágúst 2012:

 

„Í greinargerð TR segir að greiðsluréttur A hafi verið endurskoðaður út frá þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga að TR væri óheimilt að breyta frá þeirri útreikningsaðferð vegna örorkulífeyris sem viðgengst hefði um árabil í sambærilegum málum að reikna að fullu með tímanum frá upphafi örorkumats til 67 ára aldurs umsækjanda. Úrskurðurinn sem vitnað er í er nr. 297/2009, samanber svar […], dags. 16.7.2012. Í úrskurði nr. 297/2009 segir að sú breytta framkvæmd sem Tryggingastofnun hafi tekið upp á sé verulega íþyngjandi fyrir bótaþega og telur nefndin ekki málefnalegt án skýrra lagafyrirmæla að breyta með svo íþyngjandi hætti þeirri framkvæmd á greiðslu örorkulífeyris, sem ríkt hafi um árabil. Því var ákvörðun TR er varðar búsetuhlutfall hnekkt. TR var gert að halda sig við fyrri útreikningsreglu þar sem breytt réttarframkvæmd og lögskýring TR fær að mati úrskurðarefndar almannatrygginga ekki beina stoð í orðalagi 18. gr. almannatryggingalaga. Búsetuhlutfall A eftir leiðréttingu TR í október 2011 (61,04%) er reiknað á sama hátt og viðgengst hefur um árabil í sambærilegum málum og á sama hátt og úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur staðfest í úrskurði sínum nr. 297/2009, þ.e. reiknað er að fullu með tímanum frá upphafi örorkumats til 67 ára aldurs og tímanum fram að 67 ára aldri er bætt við að fullu. A hefur frá X 2007 uppfyllt skilyrðin um örorkulífeyri og tengdar greiðslur og eiga sömu útreikningsreglur að gilda um útreikning greiðslna hennar frá upphaf greiðslna og frá X 2007.

 

Undirrituð, f.h. A, áréttar að ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar um að bætur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár á ekki við í máli A. A uppfyllir skilyrði fyrir örorkulífeyri frá X 2007 og fékk greitt frá þeim tíma. Ákvörðun um upphafstíma örorkumats og  -greiðslna var tekin árið 2007. Á þeim tíma lá ljóst fyrir hver búsetutími A hefur verið hér á landi. Þess vegna er ekki hægt að miða greiðslur við annað en rétt búsetuhlutfall (61,04%) frá þeim degi sem hún uppfyllir skilyrði bótanna þ.e. frá X 2007. Hins vegar fékk hún fyrstu tvö árin greitt miðað við rangt reiknað búsetuhlutfall (31,64%).

 

Ef útreikningur búsetuhlutfalls hennar hefði verið rétt reiknaður frá upphafi greiðslna hefði hún fengið greitt miðað við 61,04% búsetuhlutfall. Mistök voru gerð við útreikning búsetuhlutfalls hennar og voru þau leiðrétt eftir ábendingu B. Leiðréttingin nær hins vegar aðeins 2 ár aftur í tímann en til upphafs örorkumats og –greiðslna, en um þetta atriði snýst álitamálið í kærumálinu.“

 

Athugasemdirnar voru sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi dags. 13. ágúst 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um afturvirka breytingu á hlutfalli búsetuskerðingar örorkulífeyris.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir að kæranda sé gert að una því að búsetuhlutfall hennar sé ranglega reiknað í tvö ár eða frá X 2007 til X 2009. Tryggingastofnun hafi haft upplýsingar frá kæranda um búsetu hennar erlendis áður en stofnunin hafi hafið að greiða henni örorkulífeyri og tengdar greiðslur þann X 2007. Stofnunin hafi að auki aðgang að þjóðskrá til að sannreyna upplýsingar kæranda um búsetu hennar erlendis. Hér sé því um mistök stofnunarinnar að ræða sem séu íþyngjandi fyrir kæranda. Stofnuninni beri því að leiðrétta mistök sín, ekki eingöngu tvö ár aftur í tímann heldur frá því að stofnunin hafi hafið að greiða kæranda örorkulífeyri.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns kæranda þann 11. október 2011 hafi greiðsluréttur kæranda verið endurskoðaður út frá þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnun væri óheimilt að breyta frá þeirri útreikniaðferð vegna örorkulífeyris sem viðgengist hefði um árabil í sambærilegum málum að reikna að fullu tímann frá upphafi örorkumats til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi hefur uppfyllt skilyrði örorkulífeyris frá X 2007 og að búsetuhlutfall hennar hafi verið ranglega reiknað þegar umsókn hennar var samþykkt. Það er hins vegar ágreiningur um frá hvaða tíma Tryggingastofnun beri að leiðrétta greiðslur til kæranda. Tryggingastofnun hefur þegar samþykkt að greiða kæranda mismuninn frá 1. nóvember 2009, eða tvö ár aftur í tímann, á grundvelli 2. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

 

Ákvæði 2. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga hljóðar svo:

 

Bætur, aðrar en slysalífeyrir, skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.

 

Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn berst. Í þessu máli liggur fyrir að umsókn kæranda um örorkulífeyri barst Tryggingastofnun ríkisins þann X 2007. Því telur úrskurðarnefnd almannatrygginga að framangreindu ákvæði verði ekki beitt í tilviki kæranda. Úrskurðarnefndin telur að við úrlausn þessa máls beri að líta til ákvæða fyrningalaga sem giltu á þeim tíma sem til kröfunnar stofnaðist. Í þessu máli stofnaðist krafa kæranda þegar hún sótti um örorkulífeyri þann X 2007. Þá voru í gildi lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 14/1905 fellur skuld eða önnur krafa, sem ekki hefur verið viðurkennd eða lögsótt innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í lögunum, úr gildi fyrir fyrningu. Í máli þessu er um að ræða kröfu kæranda um greiðslu örorkulífeyris fyrir ákveðið tímabil. Slíkar kröfur falla undir ákvæði 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands nr. 549/2002, en samkvæmt því ákvæði fyrnast gjaldfallnar kröfur um lífeyri á 4 árum. Fyrningarfrestur telst almennt vera frá þeim degi sem krafa verður gjaldkræf samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga. Krafa telst almennt gjaldkræf á eindaga. Hafi ekki verið samið um eindaga telst krafa hafa orðið gjaldkræf þegar kröfuhafi átti þess fyrst kost að setja fram kröfuna og miðast upphaf fyrningafrestsins þá við það tímamark.

 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi fór fyrst fram á greiðslu örorkulífeyris X 2007. Frá þeim tíma hefur krafa kæranda verið til og hefur hún frá þeim tíma getað krafist þess að fá hærra greiðsluhlutfall örorkulífeyris. Hún gerði hins vegar engar athugasemdir fyrr en umboðsmaður kæranda sendi tölvupóst til Tryggingastofnunar ríkisins þann 11. október 2011. Krafa kæranda um hærra greiðsluhlutfall örorkulífeyris var viðurkennd með tölvupósti, dags. 13. október 2011, og síðan bréfi, dags. 18. nóvember 2011.

 

Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga var fyrningu slitið með tölvupósti frá umboðsmanni kæranda til Tryggingastofnunar ríkisins þann 11. október 2011. Kærandi á því rétt á leiðréttingu fjögur ár aftur í tímann frá því tímamarki, sbr. 1. gr. og 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnun ríkisins beri að endurreikna örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda þannig að hún fái greitt 61,04% greiðsluhlutfall örorkulífeyris frá og með 11. október 2007.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um 61,04% greiðsluhlutfall örorkulífeyris til A, frá og með X 2009 er hrundið. Greiða skal 61,04% greiðsluhlutfall örorkulífeyris frá og með 11. október 2007.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum